Sunday, July 30, 2006

Loksins uppfærsla

Þetta eru nú meiru letingjarnir þessir foreldrar mínir. Ég hamast við að borða og stækka, meðan þau eru bara að gera eitthvað annað. Kannski eitthvað með að þvo fötin mín, skipta á mér, fæða mig og hugga þegar mér er illt í maganum en samt... Þau mættu allavegana láta aðeins oftar vita hvernig ég hef það.

Ég er nefnilega orðinn hrikalega stór og flottur. Fór í læknisskoðun þegar ég var 6 vikna og var þá mældur 5,2 kg og 59 sentimetrar. Maður kann þetta!

Bara svo þið getið séð að ég er að segja alveg satt, koma nokkrar myndir. Ég er búinn að læra að brosa. Það er ofsalega gaman að sjá hvernig fólk bregst við þegar ég er að æfa mig að brosa.
Ég er svo mikill töffari í þessum fötum frá Möggu Sæm að það spruttu fram á mér unglingabólur. Þær þroskuðust sem betur fer fljótt af mér.

Hérna er ég með Elvu stórusystir í galla sem Jónína, vinkona Elvu gaf mér. Pabbi og mamma keyptu kjól á hana í stíl. Ekki neitt smá flott. Allavegana er pabbi sérstaklega ánægður með litinn.

Við fórum í sumarbústað og þar leyfði Elva stóra systir mín mér að prófa að liggja í sínu rúmi, í nýju rúmfötunum. Það var alveg ótrúlega spennandi.


Álfheiður frænka kom í bústaðinn og var ofsalega sæt að syngja fyrir mig, 2 lög 2 sinnum þegar ég var eitthvað ósáttur við að fara að sofa. Mikið er ég heppinn að eiga svona góða frænku.

Tuesday, July 04, 2006

Þarf frekari vitnanna við?

Ekki að pabbi hafi haft miklar áhyggjur en ég held að þessi mynd af honum frá því að hann var á mínu reki, geri allar DNA rannsóknir óþarfar.

Hvað þá þessi

Monday, July 03, 2006

Stóra systir komin heim

Nú er stóra systir loksins komin heim. Hún var í Danmörku þegar ég fæddist og kom heim þegar ég var orðinn 19 daga gamall.
Mér finnst hún ofsalega skemmtileg, held að ég kannist við hana frá því að ég var í maganum á mömmu.